
Dagurinn i gær var viðburðarríkur, byrjuðum við snemma að taka til. Ég ákvað að þrífa veggina hér, málningarvinnan á íbúðinni er ekki sú besta og þarf ekki nema rétt að snerta veggina til þess að skilja eftir blett. Það sem meira er að þegar maður strýkur yfir með léttu sápuvatni og svampi þá þrífur maður málninguna af! Líklega er enginn gljái á málningunni sem notuð var eða að þeir hafa gleymt síðustu umferðinni!
Hvað um það, um hádegi var allt orðið glansandi fínt, steikti ég flotta beikonið sem ég keypti í gær, það er í heilum bita og þarf maður að skera það niður sjálfur. Engu vatni er sprautað í það og snarkar því ekki eins mikið á pönnunni og þegar maður er að steikja venjulegt vatnsbætt beikon. Bætti sveitapylsunum frá hádeginu deginum áður á pönnuna. Medisterpylsur sem maður kaupir hráar, hreinasta hnossgæti, örugglega 20 cm langar! Loks var french toast steikt, eggjabrauð, eina leiðin til að koma eggi ofan í Kára.
Þegar við vorum búin að jafna okkur eftir átveisluna í hádeginu komu Birta og Rasmus í heimsókn, færandi hendi, með hangikjöt jóladagsins og jólapakka. Við buðum þeim upp á æbleskiver með flúorsykri og sultu. Þau komu með vínarbrauð og bættu á kaffiborðið. Við drukkum góðan jólabjór með herlegheitunum. Birta gekk um allt með myndbandstökuvélina, íbúðin okkar verður örugglega tekin fyrir í Innlit-Útlit eftir áramót!
Fjölskyldan kíkti í bæinn eftir að Birta og Rasmus kvöddu. Strákarnir fóru að skauta á Kongens Nytorv. Skautuðu hring eftir hring á tilbúnu svelli. Röltum síðan niður Strikið, enduðum á Jensens Böffhus og fengum okkur kvöldverð. Ágætis matur þar, svona í líkingu við Grillhús Guðmundar.
Enduðum daginn fyrir framan sjónvarpið, horfðum á einhverja skautaþvælu, tveir karlmenn sem keppa í parakeppni á listdansi á skautum! Ólukkans rugl en vel hægt að hlæja að þessu.