9. desember 2007

Jólakjötsúpa

Okkur var boðið í kjötsúpu í gær, til Helga listmálara og Birnu konu hans. Þau voru með veislu fyrir fjölda manns, Íslendinga og Dani, kunningja og vini. Helgi var búinn að vera að brasa með kjötsúpuna alla vikuna, búa til soðið og annað maus. Birna smurði rúgbrauð með kæfu, flatkökur með reyktum laxi og bakaði kleinur.
Það mættu um 30 manns í veisluna, hún var úti í porti og súpupotturinn settur á grillið! Hún bragðaðist virkilega vel, við bjuggum okkur vel og leið ágætlega úti, það var næðingur fyrst um sinn en lægði þegar á leið kvöldið. Við vorum vel reykmettuð þegar við komum heim, Helgi kveikti eld í portinu og fékk maður sinn skammt af reyknum sem lagði frá honum. Sérstaklega fannst mér gaman að því að strákarnir borðuðu súpuna af bestu lyst, kannski af því að þeir sáu ekkert hvað þeir voru að borða! En líklegra er að þeim hafi einfaldlega fundist hún bragðgóð, það var mikið grænmeti í súpunni, kjötið notað sem kraftur og krydd.
Jólakjötsúpan var virkilega gott innlegg í jólastemninguna. Við fórum á aðventukvöld hjá íslenska söfnuðinum hér í Kaupmannahöfn á föstudagskvöldið, einsöngur, upplestur, jólasögur og fleira í Skt. Pauls kirkju. Fengum síðan heitt súkkulaði og smákökur í Jónshúsi. Fyrsta sinn sem við komum þangað, mjög notalegt. Kynntum Ingva fyrir prestinum, hann á að byrja að ganga til hans vegna fermingarinnar í haust. Við eigum að mæta með honum á föstudaginn. Það eru 6 aðrir krakkar sem fermast í vor. Hann er staðráðinn í því drengurinn að játa kristna trú, vill ekki fresta því til næsta árs en hér í Danmörku fermast krakkar ári seinna en heima.
Jólakveðjur!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá hvað ykkur líður vel í Köben. Mamma sagði mér frá því að Ingvi ætlaði að fermast í Köben og ég bauð henni þar með til ykkar til að vera viðstödd og hún var sko alveg geim!!
Hulda Kristín

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ, var að fatta síðuna ykkar! Var í heimsókn hjá Lottu í gær og Hulda var þar að sjálfsögðu líka. Þær systur bentu mér á síðuna. Súpukveðja,
Jóga

Binni sagði...

Sælar systur, takk fyrir að skrifa, manni finnst maður ekki vera eins mikið einn í heiminum þegar maður veit að einhver les bloggið manns. Endilega skrifiði komment! Og í dagbókina.