Ég hef frétt af því að fólk sé að spyrja sig hvað ég sé að gera hér í Kaupmannahöfn. Það er kannski ekki skrítið þar sem ég hef ekki verið allveg klár á því sjálfur. Vissulega kom ég hér út í framhaldsnám í guðfræði, mastersnám, tók tilskylda kúrsa og var kominn það langt í því námi að ekkert annað lá fyrir en að skrifa ritgerðina.
En það var einhver óánægja enn kraumandi undir, sama ónotatilfinning og keyrði mig hingað út í námið. Ég var búinn að liggja yfir verkum Kierkegaards í 3 misseri, tók reyndar eitt misseri í Veru og Tíma eftir Heidegger, og hafði sá lestur mikil áhrif á mig persónulega, sérstaklega Hugtakið Angist. Það má segja að nýtt tímabil hafi hafist í mínu lífi eftir lestur þeirrar bókar. En hversvegna settist ég þá ekki bara niður og skrifaði blessaða MA ritgerðina? Það var eitthvað sem hindraði, ég hef alltaf talið, og tel enn að Kierkegaard hafi verið að verja kristna trú, og að hann sé einn fremsti guðfræðingur nokkru sinni. Kann að hljóma undarlega þar sem hann skrifaði grein sem bar titilinn Ég er ekki kristinnar trúar! og hann lauk jú ævistarfinu með því að ráðast á dönsku þjóðkirkjuna. Svarið liggur í því hvernig hann ver trúna, með því að leggja hana fram með hennar eigin hugtökum og aðferðum en ekki aðferðum annara fræðigreina, svo sem heimspeki og sálfræði. Það gerir hann í uppbyggilegu ritum sínum.
Þess vegna flutti ég námið mitt hingað út til Kaupmannahafnarháskóla, og legg stund á nám í guðfræði hér. Ég mun á næstu árum leggja megináherslu á tungumálin, er á fullu í latínunni, næsta ár fer í hebresku og grísku, auk þess sem ég les hefðbundna grunnkúrsa, ss. kirkjusögu, trúarheimspeki og siðfræði. Vissulega fékk ég metið námið að heiman, en þeir hafa þann háttinn á að maður fær minnkaðan þann stafla af bókum sem maður þarf að lesa til prófs, en mæta skaltu í prófið. Þetta þýðir að ég þarf að taka sama tíma í námið eins og krakkarnir sem eru nýútskrifaðir úr framhaldsskóla, svona nokkurn veginn. En þetta kemur allt saman, Þóra er mjög þolinmóð og ég rosalega spenntur yfir náminu, Kaupmannahafnarháskóli er meðal fremstu háskóla í guðfræðinni í evrópu.
Ég vona að þið séuð einhverju nær um stöðu mína í náminu! Í lífinu líður mér bara svakalega vel þó svo að hamfarirnar heima hristi mann og skeki.
Ég hef sett mér markmið að skrifa hér vikulega, á þvottadeginum, föstudegi. Er orðinn svo danskur að ég er búinn taka föstudaginn frá fram á sumar fyrir þvottinn.
Bið að heilsa í bili
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
takk fyrir þetta kæri bróðir :)
Skrifa ummæli