
Jæja, þá getur maður hætt öllum bölmóði um kalt vor, hætt að bíða eftir sumrinu, það er mætt á svæðið. Við fögnuðum sumarkomunni með grillveislu hjá Helga og Birnu. Ég keypti kalkúnabringur, skar niður í gúllas og lagði í kryddlög. Var frekar skeptískur á kalkúninn en hann olli okkur ekki vonbrigðum, bragðgóður og meir. Ég fer líka ekki ofan af því að það sé betra að grilla á kolagrilli! Við sátum útí í porti hjá Helga, Marta kom líka þannig að þetta var ágætis hópur sem sat og sötraði rauðvín og bjór og bragðaði á grillmat. Verð að viðurkenna það að ég fór yfir strikið í drykkjunni, en er búinn að setja mér ansi stranga drykkjusiði þannig að ekki var um neina skandala að ræða. Var frekar latur í gær.
Fengum fyrstu heimsókn sumarsins í gær, Ingi og Vilma komu í hádegis nasl, gengum síðan niðrá strönd, það var 18 gráðu hiti, mistur yfir, sólin remdist við að skýna í gegn og þegar henni heppnaðist það hitnaði strax verulega. Sátum á svölunum seinnipartinn, þar mældist 28 gráðu hiti á kjöthitamælinum, og í litlum skugga! Spáin út vikuna hljóðar upp á 17-18 gráður og sól, en það á reyndar að draga fyrir og rigna einhverja daga eða hluta úr degi.
Hlakka ofboðslega mikið að fá fjölskylduna í heimsókn í ferminguna hans Ingva, vonandi getum við staðið við áætlunina um að grilla út í garði í rólegheitum og njóta góða veðursins.